Íslandsmeistaramót Garpa 2023

Ungmennasamband Borgarfjarðar Sund, UMSB

Íslandsmeistaramót Garpa í sundi var haldið í Kópavogslaug dagana 5.-6. maí sl. Vel á annað hundrað keppendur 25 ára og eldri skráðu sig til leiks frá 11 félögum. Það var vösk sveit 5 kvenna frá UMSB sem tók þátt að þessu sinni og sópuðu dömurnar að sér verðlaunum. Á svona móti er það þó ekki einungis keppnisandinn sem svífur yfir vötnum, heldur er gleðin allsráðandi og margir að yfirstíga alls kyns persónulegar hindranir og áskoranir í góðum hópi félaga og vina. Margir endurnýja gömul kynni og fjölbreyttar og skemmtilegar sundsögur heyrast á sundlaugarbakkanum. Fólk er duglegt að hvetja og hápunktur mótsins er lokahófið sem að þessu sinni var hið glæsilegasta.
May be an image of 1 person, swimming and text
Það er skemmst frá því að segja að lið UMSB endaði í 4. sæti stigakeppninnar sem verður að teljast stórglæsilegur árangur með ekki fleiri keppendur. Fremst í flokki fór Guðmunda Ólöf Jónasdóttir en hún varð hvorki meira né minna en fjórfaldur Íslandsmeistari, sigraði í öllum sínum greinum í aldurflokknum 70-74 ára. Guðmunda keppti í 50 metra baksundi og skriðsundi og 100 metra baksundi og skriðsundi. Harpa Dröfn Skúladóttir landaði silfri í 50 metra baksundi og tók bronsþrennu í 50 metra flugsundi og 50 og 100 metra skriðsundi. Heiðrún Helga Bjarnadóttir gerði sér svo lítið fyrir og vann til silfurverðlauna í 100 metra bringusundi. Þá krækti Arnheiður Hjörleifsdóttir, þjálfari hópsins, í gullverðlaun í 100 metra baksundi.
May be an image of 8 people and people swimming
UMSB átti líka stórglæsilegar boðsundssveitir, bæði í 4*50m skriðsundi kvenna og í 4*50m fjórsundi kvenna. Skriðsundssveitina skipuðu þær Guðmunda Ólöf, Hanna S. Kjartansdóttir, Heiðrún Helga Bjarnadóttir og Harpa Dröfn Skúladóttir. Fjórsundssveitin var skipuð þeim Guðmundu, Hönnu, Hörpu og Rakel Sigurgeirsdóttur. Báðar sveitirnar, undir nafninu #TeamMummaLóa höfnuðu í öðru sæti á mjög góðum tímum.
May be an image of 3 people and people swimming

Það hafa verið reglulegar sundæfingar tvisvar í viku hjá garpahóp UMSB síðan í mars og það er ljóst að það verður framhald á næsta vetur og hvetjum við fólk til að fylgjast með þegar þar að kemur og taka þátt í frábærum félagsskap og hollri, alhliða hreyfingu.

Deildu þessari frétt