Hvatningarverðlaun UMSB 2022

Ungmennasamband Borgarfjarðar Badminton, Frjálsíþróttafélag Borgarfjarðar, Knattspyrna, Körfubolti, Reykdælir, Sund, UMSB

Hvatningarverðlaun UMSB voru veitt í fyrsta sinn í ár en ætlunin er að þau verði veitt árlega samhliða verðlaunaafhendingu Íþróttamanneskju ársins. Þau sem geta hlotið hvatningarverðlaun UMSB eru aðildarfélag, deild innan aðildarfélags eða einstaklingur innan aðildarfélags UMSB fyrir eftirtektarverð og framsækin verkefni sem skara framúr eða fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins.

Hvatningarverðlaun UMSB 2022 hlaut Þorvaldur Jónsson, eða Valdi í brekkukoti.

Hlaut hann verðlaunin fyrir fyrir fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Hann hefur í tugi ára staðið vaktina fyrir UMFR sama hvort um er að ræða íþróttaviðburði, leiklistarstarf, viðhald á eignum félagsins eða aðra viðburði sem skapa það samfélag sem við viljum lifa í. Hann hefur eytt meiri frítíma í vinnu fyrir hreyfinguna en margur annar og alltaf með bros á vör og tilbúinn að leiðbeina þeim honum yngri og áhugasömu. Hann hefur einstakt lag á að fá fólk í að taka þátt í starfinu og alltaf tilbúinn að mæta með harmonikkuna eða spila á píanóið.  Svona félagar eru hryggjarliðurinn í allri sjálfboðavinnu sem við þurfum svo mikið á að halda í okkar samfélagi. Fyrir utan óeigingjarna vinnu fyrir íþrótta og æskulýðsstarf hefur hann sinnt störfum í björgunarsveit og sóknarnefnd fyrir samfélagið okkar í tugi ára. Hann hefur líka með sínum einstaka áhuga á góðu samfélagi skilað eldmóði sínum til komandi kynslóða sem er ekki minna mikilvægt.

 

UMSB óskar Valda innilega til hamingju og vill þakka honum fyrir sitt framlag til samfélagsins.

Deildu þessari frétt