Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2022

Ungmennasamband Borgarfjarðar Badminton, Frjálsíþróttafélag Borgarfjarðar, Knattspyrna, Körfubolti, Reykdælir, Sund, UMSB

Kristín Þórhallsdóttir var kjörin Íþróttamanneskja Borgarfjarðar 2022, annað árið í röð.

Kristín er 38 ára gömul og keppir fyrir Kraftlyftingafélag Akraness.

Kristín vann silfurverðlaun á EM og HM og tvíbætti evrópumetin í hnébeygju og samanlögðu á árinu. Hún bætti auk þess íslandsmetin í hnébeygju, réttstöðulyftu, réttstöðulyftu single liftt og samanlögðu. Kristín náði 110,27 IPF-GL stigum á árinu, en það er mesti stigafjöldi sem náðst hefur af íslenskum keppanda.

Kristín er þriðja á heimslista Alþjóðlega kraftlyftingasambandsins (IPF) í sínum þyngdarflokki fyrir árið 2022 og á fjórða besta árangur í samanlögðu sem náðst hefur í þessum flokki í sögunni innan IPF.

Kristín var auk þess í 8. sæti í vali samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins og kjörin kraftlyftingakona ársins annað árið í röð.

Í öðru sæti var Bjarki Pétursson fyrir golf.

Bjarki er 28 ára kylfingur og keppir fyrir GKG og GB.

Bjarki er sem stendur í 3064. sæti heimslistans í golfi. Bjarki einbeitti sér meira að þátttöku í mótum erlendis árið 2022. Tók þátt í nokkrum opnum mótum á landinu í sumar, með góðum árangri, m.a. sigraði hann í öllum höggleiksmótum sem hann tók þátt í á Íslandi 2022. Bjarki tók þátt í 6 mótum á Challenge Tour sem er næst sterkasta mótaröð evrópskra kylfinga og komst í lokaúrtökumót fyrir DP World Tour 2022, sem er sterkasta mótaröð heims í dag en þess má geta að Bjarki er eini íslendingurinn frá upphafi sem hefur komst í gegnum ferlið í öll þau skipti sem hann hefur leikið.

 

Í þriðja sæti var Alxandrea Rán Guðnýjardóttir fyrir kraftlyftingar

Alexendrea Rán er 23 ára Borgnesingur og æfir og keppir undir merkjum Breiðabliks. Árangur Alexandreu á árinu, sem er hennar síðasta í ungmennaflokki, var hreint frábær. Hún varð í fyrsta sæti á öllum mótum sem hún keppti á í klassískum kraftlyftingum og bætti eigið Íslandsmet í klassískri bekkpressu í -63 kg opnum flokki nokkrum sinnum á árinu.

Alexandrea er fremst ungra kvenna í heiminum í sínum þyngdarflokki í bæði klassískri bekkpressu og bekkpressu. Einnig hefur hún náð góðum árangri í þrílyftu.

Þá er hún á topp 5 á heimslistanum í opnum flokki í bæði klassískri bekkpressu og bekkpressu í -63 kg flokki.  Hún er í 3. sæti stigalistans á Íslandi í klassískri bekkpressu, óháð aldri og þyngd og í 2.sæti á stigalistanum í bekkpressu.

Samtals setti Alexandrea 14 Íslandsmet á árinu, auk þess að verða Norðurlandameistari, Evrópumeistari og Heimsmeistari í klassískri bekkpressu!

 

Í fjórða sæti var Helgi Guðjónsson fyrir knattspyrnu

Helgi er 23 ára knattspyrnumaður og spilar knattspyrnu með Víkingi Reykjavík.

Helgi spilaði nánast alla leiki Víkings sem átti mjög gott tímabil. Liðið endaði í þriðja sæti á Íslandsmótinu, varð Mjólkurbikarmeistari og Meistari meistaranna.

Helgi er einstaklega einbeittur íþróttamaður sem setur íþrótt sína framar öllu öðru enda er hann í dag orðinn einn besti framherji landsins og varð markahæsti leikmaður Víkings á árinu 2022, skoraði 23 mörk í 48 leikjum.

 

Í fimmta sæti var Bjarni Guðmann Jónsson fyrir körfuknattleik

Bjarni Guðmann er 23 ára körfuboltaleikmaður og spilar fyrir Fort Hays State háskólann í Bandaríkjunum þar sem hann er nú á sínu fjórða ári á fullum skólastyrk.

Bjarni var í byrjunarliði Fort Hays State í öllum leikjum ársins og var einn af máttarstólpum liðsins. Bjarni var valinn í varnarlið ársins í deildinni.

Bjarni er ósérhlífinn og vinnusamur íþróttamaður sem hefur alltaf stundað íþrótt sína af kappi. Var hann valinn í æfingahóp A-landsliðs Íslands fyrir undirbúningsleiki fyrir HM sem sýnir að hann er á góðri leið með að festa sig í sessi með sterkustu körfuknattleiksmönnum landsins.

Ungt íþróttafólk fékk einnig viðurkenningu fyrir val í landslið á árinu og framtíðin er virkilega björt með þetta flotta íþróttafólk innan okkar raða. Þau sem fengu viðurkenningur í þetta sinn voru:

 

 

 

Alexandrea Rán Guðnýjardóttir – kraftlyftingar

Var í U23 landsliðinu í kraftlyftingum og keppti fyrir Íslands hönd á fimm mótum á árinu 2022. Varð hún m.a. Norðurlanda-, Evrópu- og Heimsmeistari í – 63 kg flokki ungmenna.

 

 

 

 

 

 

Díana Björg Guðmundsdóttir – leikmaður Aþenu

Var valin í lokahóp U16 í körfuknattleik sem tók þátt i Norðurlandamótinu sem fram fór í Finnlandi s.l. sumar og Evrópumótinu sem fram fór í Svartfjallafjallalandi í ágúst. Einnig var hún boðuð í æfingahóp U18 sem æfði á milli jóla og nýárs vegna verkefna ársins 2023.

 

 

 

 

 

 

Eiríkur Frímann Jónsson – leikmaður Skallagríms

Var valinn í lokahóp U15 sem fór í æfingaferð til Finnlands s.l. sumar í æfingabúðir og spiluðu þrjá leiki gegn Finnum. Einnig var hann boðaður í æfingahóp U16 sem æfði á milli jóla og nýárs vegna verkefna ársins 2023.

 

 

 

 

 

Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir – í Sundfélagi Akraness

Er í unglingalandsliðinu í sundi og tók þótt í verkefnum og keppnum erlendis á þeirra vegum á árinu 2022, m.a. Glasgow International.

Guðbjörg Bjartey átti mjög gott ár í fyrra, hún er farin að láta til sín taka í fullorðinsflokki og með frábærum árangri á Íslandsmeistaramótinu tryggði hún sér áframhaldandi sæti í unglingalandsliðinu.

 

 

 

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir – ÍR/VCU (Virginia Commonwealth University)

Guðrún Karítas var valin í landsliðið í frjálsum íþróttum. Hún stundar háskólanám og æfir sleggjukast í VCU háskólanum í Richmond í Bandaríkjunum á fullum skólastyrk.

Með landsliðinu keppti Guðrún Karítas á Norðurlandamóti U23 og hafnaði þar í þrðja sæti með kasti upp á 59,30 m

Á árinu 2022 kastaði Guðrún Karítas sleggjunni lengst 60,14 m sem er 3. besti árangur kvenna í fullorðinsflokki á Íslandi.

Hefur verið valin í landsliðshóp FRÍ fyrir árið 2023 og stefnir á að ná lágmarki fyrir EM U23 sem haldið verður í Finnlandi.

 

 

 

Heiður Karlsdóttir – leikmaður Fjölnis

Var valin í lokahóp U18 í körfuknattleik sem tók þátt i Norðurlandamótinu sem fram fór í Finnlandi s.l. sumar og Evrópumótinu sem haldið var í Búlgaríu í júlí. Einnig var hún boðuð í æfingahóp U18 sem æfði á milli jóla og nýárs vegna verkefna ársins 2023.

 

 

 

Victoría Lind Kolbrúnardóttir U-16 karfa – leikmaður Fjölnis

Var valin í lokahóp U16 í körfuknattleik sem tók þátt i Norðurlandamótinu sem fram fór í Finnlandi s.l. sumar og Evrópumótinu sem fram fór í Svartfjallafjallalandi í ágúst. Einnig var hún boðuð í æfingahóp U18 sem æfði á milli jóla og nýárs vegna verkefna ársins 2023.

 

 

 

Maraþonbikarinn var veittur en Maraþonbikarinn var gefinn af Bjarna Bjarnasyni á sínum tíma og er veittur fyrir besta tímann í maraþonhlaupi á árinu. Hlaut Jósep Magnússon Maraþonbikarinn annað árið í röð.

 

Auðunsbikarinn hlaut Kristján Karl Hallgrímsson. Bikarinn er veittur af Minningarsjóði Auðuns Hlíðkvist Kristmarssonar sem lést, 2. ágúst 1995, aðeins 14 ára gamall. Bikarinn er veittur 14 ára unglingi sem þykir efnilegur í íþrótt sinni, sýnir metnað í ástundun og framkomu og er góð fyrirmynd innan vallar sem utan.

Tilgangur viðurkenningarinnar er að minnast Auðuns Hlíðkvist og einnig að styðja við og hvetja áfram unga og efnilega íþróttamenn á svæðinu.

 

UMSB óskar þessu flotta íþróttafólki sem við eigum innilega til hamingju með árangurinn!

Deildu þessari frétt